Innlent

Faðir og bræður leiðtoga árásarmanna á Srí Lanka féllu í átökum við herinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Tíu þúsund hermenn leita nú mögulegra samverkamanna þeirra sem frömdu árásirnar á Páskadag.
Tíu þúsund hermenn leita nú mögulegra samverkamanna þeirra sem frömdu árásirnar á Páskadag. Tharaka Basnayaka/Getty
Faðir og tveir bræður mannsins sem grunaður er um að vera höfuðpaur hryðjuverkaárásanna á kirkjur og hótel á Srí Lanka á Páskadag létust í skotbardaga þegar herinn gerði áhlaup á húsnæði í þeirra umsjá. Þetta hefur Reuters eftir heimildarmönnum innan lögreglunnar þar í landi og fjölskyldumeðlim höfuðpaursins.

Mennirnir þrír, Zainee Hashim, Rilwan Hashim og faðirinn Mohamed Hashim voru meðal þeirra 15 sem féllu í skotbardaga milli hermanna og íslamskra vígamanna á föstudag.

Þremenningarnir höfðu áður sést á myndbandi sem gekk á milli sem gengur nú um samfélagsmiðla þar sem þeir lýstu stríði á hendur þeim sem aðhylltust ekki Íslam. Mennirnir í myndbandinu voru meðal þeirra sem létust í árásinni en Niyaz Sharif, mágur Zahran Hashim, sem talinn er vera aðalmaðurinn á bak við árásirnar, staðfesti við fjölmiðla að mennirnir þrír væru bræður hans og faðir.

Yfirvöld telja Zahran sjálfan hafa sprengt sig í loft upp í einni árásanna á Páskadag.

Mikil ólga ríkir á Srí Lanka í kjölfar árásanna sem heimtu líf yfir 250 einstaklinga, en stjórnvöld þar í landi óttast að fleiri sem hyggja á sjálfsmorðssprengjuárásir gangi lausir. Tíu þúsund hermenn hafa verið kallaðir út víðs vegar um eyjuna til þess að leita að meðlimum tveggja íslamskra vígahópa sem taldir eru bera ábyrgð á ódæðisverkunum.

Yfir 100 manns eru í haldi stjórnvalda, meðal annars erlendir aðilar frá Egyptalandi og Sýrlandi.


Tengdar fréttir

Myndskeið af árásarmanni birt

Myndskeið hefur verið birt sem sýnir mann sem talinn er hafa sprengt eitt hótelanna í Srí Lanka, fyrir utan Tropical Inn hótelið í Dehiwala rétt áður en sprengingin varð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×