Fótbolti

Sjáðu hvernig VAR hafði áhrif á lykilatriði í sigri Tottenham á City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Myndbandadómgæsla (VAR) hefur verið að ryðja sér til rúms í stærstu keppnum heims og Meistaradeild Evrópu er engin undantekning. Hún hafði mikil áhrif á leik Tottenham og Manchester City í Meistaradeild Evrópu í gær.

Knattspyrnusamband Evrópu tók þá ákvörðun að notast við þessa tækni frá og með 16-liða úrslitunum á núverandi leiktíð í Meistaradeild Evrópu. Hún er þó komin til að vera og verður við lýði frá og með umspilsumferð Meistaradeildarinnar í lok ágúst.

Dómurum er heimilt að grípa til myndbandadómgæslu þegar atvik varða mörk, vítaspyrnudóma, bein rauð spjöld og þegar dæmt er á rangan leikmann.

Í leiknum í gær voru myndbandadómarar notaðir þegar vítaspyrna var dæmd á Danny Rose, varnarmann Tottenham, fyrir að handleika knöttinn innan teigs. Sergio Agüero lét þó hins vegar Hugo Lloris verja frá sér vítaspyrnuna.

Staðfestingar beðið á marki Son.Getty/Matthew Ashton
Skoðun myndbandadómara þurfti einnig til að staðfesta að Son Heung-min missti ekki boltann út af vellinum áður en hann skoraði mark sitt á 78. mínútu. Svo var ekki og reyndist það sigurmark leiksins.

Bæði atvik má sjá efst í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×