Innlent

Kröpp lægð mun ganga norður með austur­ströndinni

Atli Ísleifsson skrifar
Búast má stormi víða um landið austanvert og getur vindur staðbundið náð um 28 m/s með hviðum þá um eða yfir 40 m/s.
Búast má stormi víða um landið austanvert og getur vindur staðbundið náð um 28 m/s með hviðum þá um eða yfir 40 m/s. Veðurstofan
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun á Austfjörðum og Norðurlandi eystra vegna krapprar lægðar sem mun ganga norður með austurströnd landsins á morgun.

Á vef Veðurstofunnar segir að líklegt sé að lægðin muni hafa samgöngutruflanir í för með sér bæði norðan- og austanlands. Má búast við að í hviðum nái vindur allt að 40 metrum á sekúndu á stöku stað.

Þá hefur einnig verið gefin út gul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu, Ströndum og Norðurlandi vestra, Hálendinu og Suðausturlandi.

„Búast má stormi víða um landið austanvert og getur vindur staðbundið náð um 28 m/s með hviðum þá um eða yfir 40 m/s. Töluverð úrkoma fylgir með í för og er sennilegast að mest verði þetta snjókoma, þótt vissulega geti blotnað í úrkomunni úti við austurströndina.

Saman leiðir þetta til stórhríðar sem mun einkum hafa áhrif norðaustanlands, þ.e. frá Tröllaskaga og austur á Austfirði, þótt vissulega geti ferðalög verið erfið annars staðar á Norðurlandi.

Einnig getur gert hríðarveður á Suðausturlandi í nótt. Í öðrum landshlutum verður veður rólegra, þótt vissulega geti snjóað og það jafnvel talsvert staðbundið eins og á höfuðborgarsvæðinu síðdegis á morgun,“ segir á vef Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×