Körfubolti

Ólafur: Erum ekki í þessu til að vera hraðahindrun fyrir þá

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur var hetja Grindvíkinga í kvöld.
Ólafur var hetja Grindvíkinga í kvöld. Vísir/Eyþór
„Ég held ég hafi gert þetta síðast þegar var í unglingaflokki. Þetta er geggjuð tilfinning,“ sagði hetja Grindvíkinga, Ólafur Ólafsson, eftir leikinn gegn Stjörnunni í kvöld en hann skoraði sigurkörfuna um leið og flautan gall. Staðan í einvíginu er 1-1.

„Við vorum flottir og héldum áfram að spila hörkuvörn og létum boltann ganga aðeins betur í sókninni. Boltaflæðið datt aðeins niður í þriðja leikhluta en ég var aldrei smeykur. Kaninn þeirra átti frábært skot hér í lokin þannig að við þurftum að taka lokaskotið og vinna og við gerðum það sem betur fer,“ bætti Ólafur við en Brandon Rozzell jafnaði metin þegar hann setti niður þriggja stiga skot og víti að auki þegar 12 sekúndur voru eftir.

Grindvíkingar náðu annars að stoppa Rozzell ágætlega og karfan undir lokin var fyrsta þriggja stiga skotið sem Rozzell setti niður eftir ellefu misheppnaðar tilraunir þar á undan.

„Við spiluðum hörkuvörn á hann og reyndum að láta hann hafa fyrir hlutunum, hann á alltaf eftir að setja sín skot og það er í raun bara hægt að hægja aðeins á honum og gera þetta saman.“

„Ef við gerum hlutina saman erum við mjög góðir í vörn og sókn. Í kvöld unnum við eitt besta liðið á landinu og förum bara með hökuna upp og kassann út á miðvikudag í Garðabæinn.“

Umræðan fyrir þetta einvígi hjá körfuboltaáhugamönnum snerist að mestu um að Stjarnan færi ósigrað áfram í undanúrslitin. Grindvíkingar sýndu hins vegar í kvöld, sem og í leiknum á fimmtudag, að þeir eru með aðrar hugmyndir.

„Við erum ekkert í þessu til að vera hraðahindrun fyrir þá. Við erum í þessu til að fara áfram í næstu umferð og þurfum að vinna besta liðið á landinu til að gera það. Þá þurfum við bara að gera það og mætum fullir stjálfstrausts í næsta leik.“


Tengdar fréttir

Sjáðu sigurkörfu Ólafs í Grindavík

Það var ótrúleg dramatík í Röstinni í Grindavík í kvöld þegar Grindvíkingar jöfnuðu einvígi sitt við Stjörnuna í 8-liða úrslitum karla í körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×