Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segist ekki geta tjáð sig efnislega um innihald viðræðnanna þar sem fjölmiðlabann gildi um það. „Við erum náttúrulega að vonast eftir alvöru efnislegri umræðu. Við tökum þessar viðræður núna bara einn dag í einu,“ segir Viðar aðspurður um framhaldið.
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, segir að fundinum hafi verið frestað að beiðni SA. Hann segir viðræðurnar fyrst og fremst hafa snúist um launaliðinn en SA hafi lítið viljað leggja fram í þeim efnum. „Þeir hafa ekki treyst sér til þess um alllanga hríð og bera fyrir sig þá stöðu sem uppi er hjá WOW air þannig að menn vildu láta þennan dag líða til að sjá hver þróunin þar verður,“ segir Vilhjálmur.
Það sé magnað að kenna eigi íslensku launafólki um hvert áfall sem dynur yfir íslenskt efnahagslíf. „Nú er eitt lítið flugfélag sem veldur því að staðan sé með þessum hætti. Enn og aftur er það ekki launafólk sem ber ábyrgðina á því.“

„Við höfum líka lagt þessar aðgerðir þannig upp að þær séu með stigmögnun. Við höfum ekkert endilega séð fyrir okkur að þurfa að ná hámarksáhrifum strax í byrjun. Við lítum á þetta sem skilaboð og viljum sjá hverju þau skila.“
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir að þar á bæ standi yfir undirbúningur vegna mögulegra verkfallsaðgerða í vikunni. „Við erum að fara yfir þann mannskap sem við höfum. Ég geri ráð fyrir að við munum núna fara að loka fyrir bókanir á einhverjum dagsferðum því við munum ekki ná að þjónusta öll þessi verkefni.“
Eins og síðasta föstudag verður áherslan lögð á akstur flugrútunnar. Björn segist vonast til þess að einhver árangur verði af sáttafundi dagsins. „Við vorum jafnvel að vonast til þess að deiluaðilar væru tilbúnir að fresta verkfallsaðgerðum út af ástandinu með WOW. Þannig að okkur í ferðaþjónustunni gæfist ráðrúm til að meta ástandið.“