Innlent

Biskup Íslands fundar með múslimum í moskunni í Skógarhlíð

Jakob Bjarnar skrifar
Karim Askari er ákaflega ánægður með að Agnes biskup hafi komið í moskuna til fundar.
Karim Askari er ákaflega ánægður með að Agnes biskup hafi komið í moskuna til fundar. visir/vilhelm
„Þetta var mjög góður fundur. Og mjög gott fyrir okkur muslima á Íslandi að hitta biskupinn. Okkur var heiður sýndur með heimsókn hennar. Var mjög fallegt af henni,“ segir Karim Askari framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi í samtali við Vísi.

Agnes M. Sigurðardóttir biskup yfir Íslandi fór til fundar við múslima í moskunni í Skógarhlíð í gær. Þar var harmleikurinn í Christchurch á Nýja-Sjálandi ræddur sérstaklega.

„Við erum afar hrygg vegna þess atburðar sem er ekki ásættanlegur. Vont fyrir mannkyn allt,“ segir Karim. „Þetta ofbeldi ekki er hægt að þola.“

Fundurinn var sögulegur því þetta er í fyrsta skipti sem biskup kemur til fundar í moskunni í Skógarhlíð.visir/Vilhelm
Agnes biskup segir, á Facebook-síðu Biskupsembættisins, að harmleikurinn hafi vakið fólk til umhugsunar um mikilvægi friðar í samfélagi okkar. Og ræða þurfi til hvaða aðgerða megi grípa svo við megum búa í friðsömum heimi.

„Kristið fólk og múslimar standa saman og sýna þannig að við erum á móti hvers konar ofbeldi.

„Eitt af gildum múslima sem skráð eru á veggspjald í moskunni þeirra er að þeir vilji vera góðir samfélagsþegnar og lifa í friði og sátt við samferðafólk sitt. Kristið fólk deilir þessum sama hugsunarhætti. Samtalið er lykillinn að lausn allra mála. Með samtali vex skilningur og samheldni og löngunin til að gera gott samfélag betra,“ segir Agnes.

Fundurinn er sögulegur, að sögn Karims, því þetta er í fyrsta skipti sem biskup Íslands stígur fæti sínum í moskuna í Skógarhlíð.

Múslimar og kristnir vilja taka höndum saman og fordæma þann gjörning sem leiddi til harmleiksins í Christchurch.visir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×