Myndbandið, sem tekið var upp í apríl í fyrra, var birt á heimasíðu dýraverndunarsamtakanna Humane Society. Umræddir birnir, birna með tvo húna, voru hluti af dýralífsrannsókn á svæðinu og því hafði öryggismyndavél verið komið fyrir við munnann á híðinu.
Í myndbandinu sjást feðgarnir Andrew og Owen Renner koma skíðandi að híði bjarnanna, miða byssum sínum inn og skjóta. Heyra má húnana tvo veina inni í híðinu en feðgarnir sjást svo draga hræ móðurinnar út og fagna.
„Þau munu aldrei geta bendlað þetta við okkur,“ segir annar þeirra þá við hinn.
Feðgarnir hlutu báðir dóm fyrir verknaðinn. Andrew var dæmdur í fimm mánaða fangelsi, auk þess sem honum var gert að greiða yfir milljón íslenskra króna í sekt, en Owen hlaut skilorðsbundinn dóm og var skikkaður til að gegna samfélagsþjónustu. Myndband dýraverndunarsamtakanna af athæfi feðganna má sjá hér að neðan.