Fyrir fyrsta kappaksturinn um næstu helgi mun Vísir fara gaumgæfilega yfir öll liðin sem verða við keppni um næstu helgi. Við byrjum í botnbaráttunni.
Williams
Ökumenn: Robert Kubica og George Russell
Vél: Mercedes
Stigafjöldi árið 2018: 7
Williams liðið er í miklum vandræðum. Í síðastliðnu ári kláraði liðið keppnistímabilið aðeins með sjö stig, lægsti stigafjöldi í rúmlega 40 ára sögu liðsins.
Í ár hefur liðið skipt út báðum ökumönnum sínum og eru það F2 meistarinn frá því í fyrra, George Russell, og reynsluboltinn Robert Kubica sem munu sitja undir stýri FW42 bílsins.
Eftir að hafa misst af fyrstu tveimur dögum prófanna rak liðið aðalhönnuð sinn, Paddy Lowe. Útlitið er því ekki gott fyrir komandi tímabil og er pressan á þessu sögufræga liði mikil ef það ætlar að halda sér í Formúlu 1.

Ökumenn: Daniil Kvyat og Alexander Albon
Vél: Honda
Stigafjöldi árið 2018: 33
Helsta ástæða fyrir slæmu gengi Toro Rosso liðsins í fyrra voru endalausar vélarbilanir. Það var fyrsta ár liðsins með Honda vélar og má búast við að breyting verði á bilanatíðni vélanna í ár. Það er vegna þess að móðurlið Toro Rosso, Red Bull, mun einnig aka með Honda vélar í ár.
Daniil Kvyat snýr aftur í Formúlu 1 eftir að hafa verið rekinn frá liðinu árið 2017. Liðsfélagi hans er hinn 22 ára Alexander Albon. Hann fæddist í Bretlandi en keppir þó undir flaggi Tælands, og er aðeins sá annar í sögunni til að gera það.
Toro Rosso stóð sig mjög vel í prófunum og er liðið staðráðið í því að bæta sig frá því í fyrra. „Ég þarf aðeins að venjast hraðanum en tilfinningin er góð,“ sagði Albon eftir prófanirnar á Spáni fyrir tveimur vikum.