Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, segir það vera að einhverju leyti jákvætt að ekkert hafi fundist á því svæði sem leitað var á. Það haldi voninni lifandi og nú sé hægt að útiloka það svæði sem Jón Þröstur sást síðast á.
Jafnframt segir Davíð allar líkur vera á því að Jón Þröstur hafi stigið upp í farartæki en líkt og fyrr sagði hafa borist ábendingar þess efnis að hann hafi sést stíga inn í leigubíl daginn sem hann hvarf fyrir þremur vikum síðan.
Næstu skref lögreglu eru að sannreyna þær ábendingar sem hafa borist um ferðir Jóns Þrastar dagana og vikurnar eftir hvarf hans og staðsetja hann með þeim hætti. Þangað til ætlar fjölskylda hans að vera áfram sýnileg, hengja upp plaköt og vinna að því að finna Jón Þröst.
