Valur valtaði yfir Hauka í Domino's deild kvenna í körfubolta í kvöld. Haukar fóru heilan leikhluta án þess að setja stig í leiknum.
Valskonur eru í harðri baráttu á toppi Domino's deildarinnar en þær hafa verið algjörlega óstöðvandi síðustu vikur, ekki tapað síðustu 12 deildarleikjum fyrir leikinn á Hlíðarenda í kvöld.
Haukar hafa hins vegar að litlu að keppa, þær eru öruggar frá falli og ljóst að þær fara ekki í úrslitakeppnina.
Það tók heimakonur þrjár og hálfa mínútu að setja fyrstu stigin sín en þá fóru þær á skrið og breyttu stöðunni úr 0-7 í 8-7. Haukar komust ekki aftur yfir í leiknum.
Í hálfleik var staðan 51-31 fyrir Val og ljóst hvoru megin sigurinn myndi falla. Hver hálfleiksræðan var inni í Haukaklefanum frá Ólöfu Helgu Pálsdóttur er óvitað, en hún hefur líklega ekki óskað eftir því sem hennar lið bauð upp á í þriðja leikhluta.
Haukar skoruðu ekki stig í leikhlutanum. Af 16 skotum sem Haukaliðið tók í leikhlutanum rataði ekki eitt ofan í körfuna.
Gestirnir fundu körfuna aftur í fjórða leikhluta en það var allt of seint. Leiknum lauk með 85-55 sigri Vals sem heldur því toppsæti deildarinnar.
