Innlent

Birta mynd af „skammarlistanum“ í almennu rými

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Listinn sést hér hanga á töflu, að því er virðist í almennu rými á Grand hótel.
Listinn sést hér hanga á töflu, að því er virðist í almennu rými á Grand hótel. Mynd/Efling
Stéttarfélagið Efling segir það ekki rétt að listi yfir veikindi starfsmanna á Grand hótel í Reykjavík hafi aðeins legið á skrifstofu yfirmanns, líkt og fram kom í máli framkvæmdastjóra hjá Íslandshótelum í dag. Efling birti mynd af listanum, þar sem hann sést hanga í almennu rými á hótelinu, máli sínu til stuðnings nú síðdegis.

Efling sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem fyrst var greint frá listanum. Þar var fullyrt að áðurnefndur „skammarlisti“, þar sem nöfnum starfsfólks var raðað eftir því hver tók mesta veikindadaga árinu 2018, hefði hangið uppi á hóteli í Reykjavík. Með fylgdi nærmynd af listanum.

Framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðasviðs hjá Íslandshótelum, sem eiga Grand hótel, þvertók hins vegar fyrir það að listinn hefði hangið uppi á hótelinu í samtali við Mbl í dag. Listinn hafi aðeins legið inni á skrifstofu yfirmanns og að um væri að ræða eðlilegt yfirlit um veikindi starfsmanna.

Efling svaraði svo ummælum framkvæmdastjórans með nýrri mynd af listanum þar sem hann sést hanga uppi á töflu í almennu rými. Í færslu Eflingar, sem birt var á Facebook í dag, segir að framkvæmdastjórinn hafi farið með rangmæli.

„Myndin sem við birtum í morgun var tekin í almennu rými fyrir starfsfólk, sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Starfsfólk hefur haft samband við Eflingu til að benda á þessar rangfærslur.“



Ekki náðist í Salvöru Lilju Brandsdóttur, hótelstjóra Grand hótel, við vinnslu þessarar fréttar. Hún sagði í samtali við RÚV í dag að það væri af og frá að listinn hafi hangið uppi fyrir allra augum. Listinn hafi verið á lokaðri stjórnendastöð yfirkokks en síðan farið á flakk. Þá verði hann að sjálfsögðu fjarlægður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×