Flokkurinn hélt fund á Hótel Sögu í síðustu viku um hrein matvæli og heilbrigði dýra. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir fundinn hafa þétt raðirnar í flokknum í andstöðu við frumvarpið og skapað samstöðu sem flokknum hefur vantað í kjölfar klofnings flokksins fyrir einu og hálfu ári síðan.
Daginn fyrir fundinn var frumvarpið sett í samráðsgátt stjórnvalda en frumvarpið heimilar innflutning á hráu kjöti og eggjum frá löndum innan EES. Kristján Þór sagði í síðustu viku að stjórnvöld hafi ekki átt annarra kosta völ í kjölfar dóma Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins.
„Við Framsóknarmenn teljum að nauðsynlegt sé að bregðast við af talsverðri hörku í málinu en það getur verið að við þurfum einfaldlega að horfa á þetta sem tvö mál,“ sagði Sigurður Ingi.

Guðni segir frumvarpið uppgjöf og það þurfi að fara lengra með málið. „Forsendurnar eru breyttar frá því ég var ráðherra og barðist gegn þessu. Þá var verið að tala um gin- og klaufaveiki, í dag erum við að tala um eitruð matvæli. Kjöt sem er svikin vara og veldur skaða,“ segir Guðni. „Þetta á ekki að vera neitt álitamál. Mér finnst að ríkisstjórnin ætti að taka málið upp á vettvangi EES. Þar eru greinilega fyrirvarar sem snúa að dýraheilsu og dýravernd.“
Varðandi stöðuna í flokknum segir Guðni klofning Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr flokknum og átök hans og Sigurðar Inga hafa haft sín áhrif. Flokkurinn sé hins vegar að þétta raðirnar með andstöðu við frumvarpið. „Það þarf stundum eitt mál til að sætta þessa gömlu fjandmenn, segir í ljóði. Þá dó barn. Stundum þarf það til svo menn þjappist saman og sjái sína hagsmuni.“