Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, lagði fram frumvarp um stofnun Þjóðarsjóðs 12. desember síðastliðinn. Í sjóðinn eiga að renna tekjur vegna nýtingu orkuauðlinda í landinu, þar á meðal arður úr Landsvirkjun. Hlutverk sjóðsins er að varðveita og ávaxta þessa fjármuni og eiga þeir að nýtast ef ríkið verður fyrir alvarlegum fjárhagslegum skakkaföllum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, velti því hinsvegar upp í útvarpsþættinum Sprengisandi fyrir rúmri viku síðan hvort ekki væri skynsamlegra að nýta fjármagnið í samgönguframkvæmdir næstu fjögur til fimm árin og þannig sleppa við að setja á veggjöld.

"Við skulum nota þessa innheimtuleið vegna þátttöku erlendra ferðamanna í að byggja þetta upp með okkur vegna þess að þeir borga svo stóran hluta," sagði Jón í útvarpsþættinum Bítið á Bylgjunni í morgun.
Hann segir að hann sjálfur og aðrir þingmenn hafi talað fyrir því að ef veggjöld verði lögð á komi til lækkun á öðrum gjöldum. Hugmyndir um að nýta fjármagn sem á að renna í Þjóðarsjóð gæti fjármagnað þessa mótvægisaðgerð.
„Ef það er aukið svigrúm í ríkisfjármálunum eins og samgönguráðherra er að tala fyrir þegar hann talar um að nýta fjármagnið í svona verkefni. Þá skulum við bara fara í að lækka skatta. Við gætum til dæmis byrjað á því að taka bifreiðaskattinn í burtu. Ég held að hann skili einhverjum 6 til 7 milljörðum í þjóðarbúið.“
Hlusta má á viðtalið við Jón Gunnarsson í fullri lengd í spilaranum fyrir neðan.