Tilkynnt var um óhappið klukkan 16:21. Það átti sér stað þar sem vegurinn er einbreiður til vesturs og lokaði umferð. Lögreglan veitti þá umferð til vesturs um Þrengslinn. Hellisheiðin var opnuð aftur á sjöunda tímanum í kvöld.
Fréttin var uppfærð klukkan 18:30.
Umferð um Suðurlandsveg er nú beint um Þrengslin eftir að Hellisheiði var lokað til vesturs vegna slyss sem átti sér stað í Hveradölum. Lögreglan gerir ráð fyrir að lokað verði um Hellisheiði í klukkustund á meðan ökutæki eru fjarlægð.
Ekkert kemur fram um slys á fólki í færslu lögreglunnar á Suðurlandi. Vísir reyndi að ná tali af lögreglunni á Selfossi en án árangurs. Brunavarnir Árnessýslu sögðu að þeim hefðu ekkert útkall borist. Færsla lögreglunnar birtist þegar klukkan var tuttugu mínútur gengin í sex og var þá talað um klukkutíma lokun.
Ökumaður sem hafði samband við Vísi skömmu eftir klukkan fimm sagði að umferð til vesturs hefði verið stopp í um stundarfjórðung þá. Veðuraðstæður væru ágætar en fljúgandi hálka. Í tilkynningu Vegagerðarinnar segir að hálka og skafrenningur sé á Hellisheiði og Þrengslum.