Frá þessu skýrir Birgir Þröstur Jóhannsson, meðstjórnandi í samtökunum, sem sat fundinn í gær. Hann kynnir hugmyndina í Facebook-hópnum Íbúasamtök Vesturbæjar.
„Hringbraut er stór stofnbraut sem klífur Vesturbæ og er mjög hættuleg gangandi og hjólandi sem eiga leið sína yfir hana. Hún er farartálmi sem bæði setur sérstaklega börn í lífshættu og grefur undan íþrótta- og félagsstarfi vegna þess hvað hún er erfið yfirferðar. Íbúasamtök Vesturbæjar vilja að gerðar verði sem fyrst öruggar og notendavænar útfærslur fyrir gangandi og hjólandi á leið yfir Hringbraut,“ segir Birgir Þröstur.

• Að þegar það er grænt ljós fyrir gangandi og hjólandi sé rautt ljós fyrir bíla í allar áttir (líka fyrir beygjur). Að gangandi og hjólandi geti einnig gengið á ská þvert yfir gatanamótin
• Að grænu gönguljósin séu alls ekki styttri en umferðarljósin fyrir ökutækin
• Að gangbrautir séu vel merktar með öðru efnisvali, lit og áferð en malbik götunnar
• Að lýsing sé öðru vísi á litinn og hönnuð sérstaklega fyrir gangbrautir. Að ljósastaurar séu lágir og í heildina mun meiri lýsing þar sem þveranir gangandi og hjólandi eru
• Að bílarnir séu látnir stoppa í góðri fjarlægð frá gangbrautum
• Að settar verði upp hraðamælitæki og myndavélar

Leggja samtökin til að fyrrnefndar göngu- og hjólaþveranir verði gerðar fyrst á fjórum stöðum. Gatnamótum við Framnesveg, þar sem Bræðraborgarstígur og Kaplaskjólsvegur mætast, þar sem Ljósvallagata og Birkimelur mætast og á Hringbraut við Bjarkagötu/Sæmundargötu.
Auk þess verði gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu endurgerð. Þá telja samtökin ákjósanlegt að hringtorgin við Suðurgötu og beggja vegna Ánanausta verði fjarlægð. Hringtorg auki aðeins öryggi bíla en séu hættuleg gangandi og hjólandi. Vilja samtökin umferðarljós með góðum gangbrautum þeirra í stað.
Fulltrúar Vegagerðarinnar mæta á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingi klukkan 16 í dag. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir brýnt að heyra hvernig Vegagerðin sjái öryggismálin við Hringbrautina fyrir sér en gatan heyrir undir Vegagerðina.