Handbolti

Fyrsta stóra prófið í undirbúningnum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Aron Pálmarsson verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í handbolta þegar liðið mætir Noregi í æfingaleik ytra síðdegis í dag.
Aron Pálmarsson verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í handbolta þegar liðið mætir Noregi í æfingaleik ytra síðdegis í dag. Fréttablaðið/Ernir
Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir Noregi í fjögurra liða æfingamóti sem fram fer á norskri grundu næstu daga. Þetta verður mun meiri prófsteinn á liðið en fyrstu æfingaleikir liðsins í undirbúningi sínum fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í Þýskalandi og Danmörku eftir rúma viku.

Guðmundur Þórður Guðmundsson fór með 17 leikmenn til Noregs í leikina; gegn Noregi sem leikinn verður klukkan 17.15 að íslenskum tíma í dag, síðan Brasilíu og Hollandi. Ísland leikur við Brasilíu á laugardaginn og Erling Richardsson og lærisveina hans í hollenska liðinu á sunnudaginn kemur.

Arnar Freyr Arnarsson mun ekki leika með íslenska liðinu í þessum leikjum vegna meiðsla á nefi og Stefán Rafn Sigurmannsson ferðaðist ekki með liðinu til Noregs vegna veikinda sinna.

Heimir Óli Heimisson kemur inn í íslenska hópinn í stað Arnars Freys, en Guðjón Valur Sigurðsson verður eini hreinræktaði vinstri hornamaðurinn í hópnum í þessum leikjum. Þá kemur Ágúst Elí Björgvinsson inn í markvarðasveit íslenska liðsins frá stórsigrunum gegn Aroni Kristjánssyni og liðsmönnum hans hjá Barein milli jóla og nýárs.

Arnar Birkir Hálfdánarson, Haukur Þrastarson, Ágúst Birgisson og Óðinn Þór Ríkharðsson sem léku með liðinu gegn Barein munu ekki vera í leikmannhópnum að þessu sinni, en þó kemur enn til greina að þeir verði kallaðir inn í leikmannahópinn þegar liðið heldur til München­ og hefur leik á heimsmeistaramótinu.

Þar verða Króatar fyrstu andstæðingar íslenska liðsins í riðlakeppni mótsins, en leikur liðanna fer fram föstudaginn 11. janúar. Ísland er svo með Spánverjum, Makedóníu, Barein og Japan, sem Dagur Sigurðsson stýrir, í riðli á mótinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×