Karlmaður var handtekinn í miðborg Reykjavíkur um klukkan þrjú í nótt eftir að hann réðist að lögreglubíl, beraði sig og fór ekki að fyrirmælum. Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi verið vistaður í fangageymslu vegna málsins.
Tilkynnt var um rúðubrot í verslun í miðbænum skömmu eftir klukkan 23 í gærkvöldi og liggur ekki fyrir hvort eitthvað hafi verið tekið eður ei. Sömuleiðis er ekki vitað hver var að verki.
Í dagbók lögreglu segir einnig frá því að tilkynnt um geltandi hund í húsnæði í austurbænum skömmu fyrir klukkan eitt í nótt. Var hundurinn búinn að gelta í langan tíma. „Ekki náðist í eiganda en tilkynnanda bent á að hafa samband við MAST vegna málsins.“
Skömmu eftir miðnætti var tilkynnt um innbrot í skóla í Hafnarfirði. Ekki er vitað hvort einhverju hafi verið stolið eða hver eða hverjir voru að verki.
Þá segir að karlmaður hafi verið handtekinn í heimahúsi í Kópavogi þar sem hann var búinn að „brjóta og bramla“ heima hjá sér. Segir að ekkert annað hafi verið í stöðunni en að vista hann í fangageymslu þar til af honum rennur.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu þurfti einnig að hafa afskipti af fjölda ökumanna vegna gruns um ölvun við akstur, eða akstur undir áhrifum fíkniefna.
Réðst að lögreglubíl og beraði sig
Atli Ísleifsson skrifar
