Elín Björk Jónasdóttir, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Vísi að í fljótu bragði virðist sem veðurspár hafi gengið eftir. Hún gerir ráð fyrir að vind lægi með deginum en veður verður þó áfram mjög vont vestan- og suðaustantil á landinu fram til klukkan 14. Veður á Norðurlandi verður hins vegar áfram slæmt.
„En veðrið á Norðurlandi er komið til að vera alveg næsta sólarhringinn og líklega frameftir degi á morgun.“
Í tilkynningu frá Strætó segir að veðrið í dag muni hafa töluverð áhrif á ferðir á landsbyggðinni. Áætlunarferðir úti á landi í dag verða með þessum hætti:
- Allar ferðir milli Hvolsvallar og Hafnar í Hornafirði falla niður í dag.
- Allar ferðir með leið 57 milli Reykjavíkur og Akureyrar falla niður í dag.
- Allar morgunferðir með leiðum 78 og 79 í Eyþingi falla niður.
- Leiðir 51 og 52 aka samkvæmt áætlun á milli Reykjavíkur og Hvolsvallar í dag.
- Leið 55 ekur samkvæmt áætlun á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.
Eftirfarandi vegir eru jafnframt lokaðir, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni: Þjóðvegur 1 frá Gígjukvísl að Jökulsárlóni og frá Hvolsvelli að Vik. Á Kjalarnes og á Snæfellsnes við Hraunsmúla, Öxnadalsheiði, Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði og Hófaskarði Einnig á Fjarðarheiði, Breiðdalsheiði og Öxi.