Viðskipti innlent

Segja McDonald's á leiðinni til Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fyrsti McDonald's staðurinn sem var opnaður á Íslandi í Skeifunni.
Fyrsti McDonald's staðurinn sem var opnaður á Íslandi í Skeifunni. Vísir/Vilhelm
Bandaríska götublaðið New York Post greinir frá því á vefsíðu sinni í dag að hamborgararisinn McDonald's sé á leiðinni til Íslands. Upplýsingarnar eru ekki hafðar eftir neinum en er sett í samhengi við vöxt í ferðamennsku og að fjárfestar horfi hýru auga til klakans.

McDonald's hafði á sínum tíma fjögur útibú á Íslandi en því síðasta var lokað árið 2009. Segja má að hamborgarastaðurinn Metró hafi að einhverju leyti fyllt í skarðið en borgararnir þykja líkir þeim sem McDonald's býður upp á um heim allan.

Eini viðmælandinn í frétt New York Post er Sigurður Hannesson, stærðfræðingur og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Sigurður ræðir við blaðamann um ferðamannasprengjuna og fer yfir tölulegar staðreyndir um vöxtinn undanfarin ár.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segist enga hugmynd hafa um hvort hamborgararisinn sé á leiðinni til landsins á ný.
Sigurður segir í samtali við Vísi að upplýsingar um hamborgararisann komi ekki frá honum. Hann hafi rætt við blaðamann New York Post fyrir um tveimur vikum en hafði ekki séð fréttina sem birtist í dag.

Viðskiptablaðið spurðist fyrir um það fyrir tveimur árum hvort til stæði að opna McDonald's á Íslandi. Í skriflegu svari fyrirtækisins kom fram að engin áform væru uppi þess efnis.

„Hjá McDonald’s tökum við ýmsa þætti til greina þegar við íhugum að opna á nýju markaðssvæði eða í nýju landi. Í augnablikinu höfum við engin áform um að opna veitingastaði á Íslandi,“ segir í svari talsmanns McDonald’s.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×