„Neyðin er slík að hver mínúta skiptir máli. Við bregðumst við með auknum stuðningi við stofnanir á vettvangi, annars vegar til að sporna gegn yfirvofandi hungursneyð og hins vegar að úrbótum í vatnsmálum til að verjast útbreiðslu smitsjúkdóma,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Alvarlegt neyðarástand ríkir í Jemen og það hefur farið hríðversnandi á síðustu misserum. Styrjöldin hefur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér og átökin eru meginástæða neyðarástandsins. Talið er að um 75 prósent íbúa landsins, eða ríflega 22 milljónir manna hafi bráða þörf fyrir mannúðaraðstoð. Hungursneyð vofir yfir 8 til 12 milljónum manna, 3 milljónir eru á flótta innanlands og þorri þjóðarinnar býr við vannæringu. Þá hefur kólera og aðrir smitsjúkdómar brotist út í landinu.
Efnahagur Jemen er hruninn og innviðir eru í molum. Þá hefur sigið á ógæfuhliðina eftir að höfnum var lokað en það hefur leitt til mikilla verðhækkana á matvöru. Um 80% af innflutningi til landsins fer um höfnina í Hodeidah þar sem bardagar hafa geisað. Aðeins helmingur heilbrigðisstofnana landsins er starfandi og 16 milljónir manna hafa ekki aðgang að hreinu vatni og salernisaðstöðu sem aftur eykur líkurnar á útbreiðslu smitsjúkdóma.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.