Innlent

Jón Trausti vill 10,5 milljónir í bætur frá ríkinu

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Jón Trausti Lúthersson sat í gæsluvarðhaldi en var á endanum ekki ákærður af héraðssaksóknara.
Jón Trausti Lúthersson sat í gæsluvarðhaldi en var á endanum ekki ákærður af héraðssaksóknara. Vísir/Vilhelm
Jón Trausti Lúthersson fer fram á 10,5 milljónir í skaðabætur frá ríkinu vegna ólögmæts gæsluvarðhalds en hann sat í einangrun í 21 dag vegna rannsóknar á dauða Arnars Jónssonar Aspar í fyrra.

Sveinn Gestur Tryggvason var einn ákærður og dæmdur fyrir að hafa verið valdur að dauða Arnars, með hættulegri líkamsárás, en sex manns voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins. Auk Jóns Trausta hafa bræðurnir Marcin Wieslaw og Rafal Marek Nabakowski einnig krafist bóta en þeir sættu einangrun í viku vegna málsins.

Ríkislögmaður hefur þegar hafnað bótakröfu Jóns Trausta með þeim rökum að hann hafi sjálfur valdið eða stuðlað að gæsluvarðhaldinu, þar sem hann hafi ekki sýnt samvinnu við rannsókn málsins, gefið litlar eða óljósar skýringar á atburðarás og hafnað því að veita lögreglu leyfi til að skoða símann sinn.

„Það er fráleitt að halda því fram að hann hafi sjálfur stuðlað að einangrunarvist sem hann sætti í 21 dag. Framburður hans var afdráttarlaus allan tímann og í samræmi við frásagnir vitna,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Jóns Trausta.

Bótaréttur Jóns er í stefnu byggður á því að ekki hafi verið færðar sönnur á meinta háttsemi hans og sakir á hendur honum hafi verið felldar niður. Hans eina aðkoma að andláti Arnars hafi falist í því að afvopna hann og yfirbuga. Frásögn hans hafi verið óbreytt frá fyrstu yfirheyrslu og allt þar til hann hafi gefið skýrslu í aðalmeðferð sakamálsins gegn Sveini Gesti.


Tengdar fréttir

Sex ára dómur yfir Sveini Gesti staðfestur

Landsréttur hefur staðfest sex ára fangelsisdóm yfir Sveini Gesti Tryggvasyni fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða Arnars Jónssonar Aspar á Æsustöðum í Mosfellsdal í júní í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×