Innlent

Tálmun, ofbeldi og hótanir við veitingahús í Grafarholti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekki liggur fyrir hvort um sama veitingahús í Grafarholti var að ræða í málunum tveimur.
Ekki liggur fyrir hvort um sama veitingahús í Grafarholti var að ræða í málunum tveimur. Vísir/Vilhelm
Tveir menn voru handteknir með stuttu millibili við veitingahús í Grafarholti seint í gærkvöldi. Fyrri maðurinn var handtekinn klukkan 23:39 en hann var ölvaður og er grunaður um hótanir. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu vildi maðurinn aðspurður hvorki gefa upp nafn sitt né kennitölu. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Um fjörutíu mínútum síðar var annar ölvaður maður handtekinn við veitingahús í Grafarholti. Sá er grunaður um tálmun og ofbeldi gegn lögreglu en hann reyndi að hindra lögreglu við handtöku. Ekki liggur fyrir hvort um sama veitingahús var að ræða í málunum tveimur. 

Ökumenn undir áhrifum ollu slysum

Eins og áður hefur komið fram var mikill erill hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær og í nótt og eru fangageymslur á Hverfisgötu fullar eftir nóttina.

Á sjötta tímanum í gær var tilkynnt um innbrot í bifreið í miðborginni en þaðan hafði verið stolið fjallgöngubúnaði.

Á áttunda tímanum var tilkynnt um umferðaróhapp móts við Úlfarsfell. Ökumaður annars bílsins er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Hinn ökumaðurinn fann til eymsla í mjöðm og var fluttur til aðhlynningar á Slysadeild.  Báðar bifreiðar voru fluttar af vettvangi með dráttarbifreið.

Skömmu fyrir klukkan tvö í nótt var tilkynnt um annað umferðaróhapp á Miklubraut við Kringlumýrarbraut. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur, of hraðan akstur og akstur mót rauðu ljósi. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og var að því búnu vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögrelgu.

Um klukkan fjögur í nótt var svo tilkynnt um þriðja umferðaróhappið í Hafnarfirði. Tjónvaldur var handtekinn grunaður um ölvun við akstur og  vistaður í fangageymslu.

Þá sinnti lögregla málum vegna ofurvölvi manna í miðborginni í nótt auk þess sem nokkur fjöldi ökumanna var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×