Málsvörn Björgvins Jónssonar, verjanda Møller Olsen, byggir sem fyrr á því að gera hlut skipverjans Nikolaj Olsen tortryggilegan. Sá var í Kia Rio bílnum þegar Birna fór í bílinn í miðbæ Reykjavíkur. Nikolaj Olsen bar að miklu leyti fyrir sig minnisleysi sökum ofneyslu áfengis þegar málið var flutt í héraði.
Björgvin sá þó ekki ástæðu til þess að óska eftir því að Niklaj Olsen gæfi aftur skýrslu fyrir dómi. Við undirbúningsþinghald í síðustu viku sagði Björgvin það mögulega mistök af sinni hálfu. Þá verður ekkert af því að Møller Olsen máti úlpu í dómal eins og til stóð. Úlpan fannst blóðug um borð í togaranum Polar Nanoq. Møller Olsen hefur mátað úlpuna undir eftirliti tæknideildar lögreglu en hann neitar að um hans úlpu sé að ræða. Hún sé of lítil á hann. Mynd af Møller Olsen í úlpunni er meðal gagna sem lögð verða fram í dag.

Stendur fram eftir degi
Þá verður einnig lögð fram mynd af Nikolaj Olsen af Instagram-síðu unnustu hans og samanklippt myndband úr eftirlitsmyndavél við skála Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sem sækir málið segir engin af þeim gögnum sem verjandi Møller Olsen hyggst leggja fram sýna fram á sekt Nikolaj Olsen og þar með sýknu Møller Olsen.Blaðamaður Vísis verður í dómsal í dag. Fjölmiðlar mega ekki flytja fréttir af skýrslutökunum, þar á meðal yfir Møller Olsen, fyrr en skýrslutökum yfir þeim öllum verður lokið. Þá hafa aðstandendur farið fram á að þinghaldi verði lokað verði birtar myndir af Birnu Brjánsdóttur í dómsalnum.
Aðalmeðferðin hefst klukkan 9. Að loknum skýrslutökum og spilunum á upptökum, sem áætlað er að taki um þrjár klukkustundir, hefur ákæruvaldið 90 mínútur í málflutning, Björgvin Jónsson verjandi tvær klukkustundir og lögmaður foreldra Birnu þrjátíu mínútur.