Viðskipti innlent

Kjálkanes hefur keypt fjögurra prósenta hlut í Íslenskum verðbréfum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
36 milljóna króna tap var á rekstri Íslenskra verðbréfa í fyrra.
36 milljóna króna tap var á rekstri Íslenskra verðbréfa í fyrra. Fréttablaðið/Pjetur
Félagið Kjálkanes, sem er meðal annars í eigu systkinanna Önnu og Inga Jóhanns Guðmundsbarna, hefur keypt fjögurra prósenta hlut í Íslenskum verðbréfum (ÍV) og á nú níu prósenta hlut í verðbréfafyrirtækinu. Salvus, félag Sigþórs Jónssonar, sem lét á síðasta ári af störfum sem framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, hefur jafnframt selt fjögurra prósenta hlut sinn í fyrirtækinu.

Kjálkanes eignaðist fimm prósenta hlut í ÍV á haustið 2015 þegar hópur fjárfesta gekk frá kaupum á samanlagt um 90 prósenta hlut. Ingi Jóhann og Anna, sem eru stjórnendur hjá útgerðarfélaginu Gjögri, eiga samanlagt 44 prósenta hlut í Kjálkanesi en aðrir hluthafar eru meðal annars Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, með 8,7 prósenta hlut og systkini hans.

Stærstu hluthafar ÍV, hver um sig með 9,99 prósenta hlut, eru Stapi lífeyrissjóður, Brú lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar, Kaldbakur, sem er í eigu Samherja, KEA og eignarhaldsfélagið Maritimus Investors, sem er í eigu Sigurðar Arngrímssonar fjárfestis.

Tæplega 36 milljóna króna tap var á rekstri Íslenskra verðbréfa á síðasta ári borið saman við hagnað upp á 116 milljónir á árinu 2016. Heildartekjur verðbréfafyrirtækisins námu rúmlega 700 milljónum í fyrra og drógust lítillega saman á milli ára.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×