Sveinn Gestur hefur áfrýjað þeim dómi og hélt fram sakleysi sínu í Landsrétti í morgun.
Kuntz fór yfir niðurstöðu sína í Landsrétti en hann sagði eiturefnarannsókn á blóði Arnars hafa leitt í ljós að hann var ölvaður, með hátt magn af Bupropioni og amfetamíni í blóði.
Sagði Kuntz að sú blanda gæti ýtt undir æsingaróráð, sem Arnar var haldinn þegar átökin áttu sér stað.

Áverkar á brjóski sitthvoru megin við skjaldkirtilinn gæfi til kynna að það hefði orðið fyrir þrýstingi, ólíklegt væri að það hefði verið vegna höggs.
Sagði Kuntz að það hefði verið mjög ólíklegt að æsingaróráð hefði verið valdur dauða Arnars. Til þess hefði líkamshiti hans þurft að vera um eða yfir 40 gráður en hiti hans var undir 35 gráðum þegar hann kom á sjúkrahús.
Kuntz vildi meina að flækjustig málsins væri afar hátt og þurfti að horfa til margra þátta við mat á hvað það var sem dró Arnar til dauða. Átökin hefðu staðið yfir í um sjö mínútur, sem væri byggt á gögnum málsins, þar á meðal símtölum við neyðarlínu og myndskeið, og á þeim tíma hefði Arnar örmagnast og ekki þurft mikið til að valda honum súrefnisleysi.
Hann sagði að krufning ein og sér hefði ekki leitt til niðurstöðu hvað það var sem dró Arnar til dauða heldur þurfti að horfa til gagna málsins. Æsingaróráð, sú staðreynd að hann var örmagna og að þrýstingi var beitt á öndunarveg hans leiddi til dauða hans.