Ben Zahn borgarstjóri Kenner í Louisiana hefur hætt við að banna opinber kaup á Nike vörum. Það gerði hann að ráðleggingu lögmanns borgarinnar og sagði að tillagan hefði komið niður á ímynd Kenner með ósanngjörnum hætti.
Zahn lagði tillöguna fram í síðustu viku eftir að fyrirtækið Nike opinberaði auglýsingarherferð sína með Colin Kaepernick. Kaepernick hefur verið mikið á milli tannanna á fólki í Bandaríkjunum, og þá aðallega Donald Trump, forseta bandaríkjanna, eftir að hann byrjaði að mótmæla kynþáttamisrétti og lögregluofbeldi árið 2016 með því að krjúpa á hné þegar bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður fyrir leiki NFL-deildinni.
Eins og kemur fram hér að ofan snerust mótmæli Kaepernick um ofbeldi lögreglunnar í Bandaríkjunum gagnvart svörtu fólki. Íhaldsmenn, með Trump í broddi fylkingar, hafa hins vegar sakað Kaepernick um að vanvirða fána Bandaríkjanna og hermenn.
Samkvæmt tillögunni máttu opinberir starfsmenn ekki kaupa Nike vörur til notkunar á vegum Kenner eins og í sundlaugum, görðum og íþróttahúsum. Tillagan var harðlega gagnrýnd á landsvísu og þó Kaepernick hafi ekki verið nefndur í henni, töldu flestir sig vita að hún tengdist auglýsingum hans.
Kenner er úthverfi New Orleans og meðal þeirra sem mótmæltu tillögu Zahn voru leikmenn New Orleans Saints, NFL liðs borgarinnar.
Zahn sagði fyrr í vikunni að hann væri mótfallinn því að Nike væri að boða „pólitísk skilaboð“ til að selja skó. Hann tilkynnti svo í gær að hann myndi hætta við tillöguna. Þó tók hann fram að hann væri „föðurlandsvinur“ og sagði að það myndi aldrei breytast. Hins vegar þyrfti hann að leggja áherslu á rekstur Kenner og hvað kæmi borginni vel.

