Allt að þriggja mánaða gæsluvarðhald yfir Sveini Gesti Tryggvasyni var staðfest í Landsrétti í gær. Sveinn var dæmdur í sex ára fangelsi í desember í fyrra fyrir alvarlega líkamsárás sem leiddi til dauða Arnars Jónssonar Aspar í Mosfellsdal í fyrra.
Þetta kom fram á vef Ríkisútvarpsins í morgun.
Aðalmeðferð í málinu fór fram í nóvember og komu um tuttugu vitni fyrir dóminn. Þeirra á meðal Sveinn Gestur, Jón Trausti Lúthersson og fjögur til viðbótar sem fóru ásamt fyrrnefndum tveim á heimili Arnars í Mosfellsdal kvöldið örlagaríka.
Sveinn Gestur neitaði því alfarið að hafa ráðist á Arnar að fyrra bragði og sagði Jón Trausta bera ábyrgð á mestum hlusta áverkanna. Jón Trausti neitaði sök.
Sjá einnig: Sveinn Gestur í sex ára fangelsi
Hann áfrýjaði dómnum og mun Landsréttur taka málið fyrir þann 26. september. Í gær úrskurðaði dómurinn að Sveinn Gestur skyldi sæta gæsluvarðhaldi fram að því að meðferð málsins lyki eða til 24. október. Hann hefur þegar setið í gæsluvarðhaldi frá 7. júní.
Gæsluvarðhald Sveins Gests staðfest
Samúel Karl Ólason skrifar
