Alsír var í 15. sæti á heimslistanum árið 2014 en nú aðeins fjórum árum síðar er landsliðið dottið niður í 66. sæti. Alsír komst í sextán liða úrslit á HM í Brasilíu 2014 en vann aðeins 2 af 8 leikjum sínum í undankeppni HM 2018 og komst ekki til Rússlands.
Kheireddine Zetchi, forseti alsírska knattspyrnusambandsins, leggur nú ofurkapp á að hreinsa alsírska fótboltaheiminn sem hefur verið helsjúkur af spillingu og hagræðingu úrslita í langan tíma.
Arabíska BBC eyddi þremur árum í rannsóknarvinnu í landinu þar sem rætt var við dómara, leikmenn, stjórnarmenn og tvo menn sem hafa stundað það að kaupa og selja úrslit í alsírska fótboltanum.
‘I can fix a top Algerian football match for $68,000’ https://t.co/SVaz0OrtZhpic.twitter.com/nIsAl2W6oj
— BBC News Africa (@BBCAfrica) September 19, 2018
Fyrirsögnin á heimildarmyndinni er: „Ég get hagrætt úrslitum í toppleik í Alsír fyrir 68 þúsund dollara“.
68 þúsund dollarar eru 7,4 milljónir íslenskra króna.
„Við getum ekki logið að okkur sjálfum lengur. Fótboltalandsliðið okkar er sjúkt. Alsírskur fótbolti er sjúkur,“ segir umræddur Kheireddine Zetchi í upphafi myndarinnar.
Það er hrikaleg staða á málum fótboltans innan Alsír sem menn telja að sé nú farin að hafa skelfilega afleiðingar fyrir fótboltalandsliðið.
„Leikmennirnir í fótboltalandsliðinu okkar hugsa bara um peninga,“ er haft eftir einum stuðningsmanni landsliðsins eftir að liðinu mistókst að komas á HM í Rússlandi.
„Það er gott að landsliðið tapaði og komst ekki á HM því nú ættum við að geta einbeitt okkur að því hversu hörmulegur fótboltaheimurinn okkar er,“ er haft eftir öðrum.
Svo er skipt yfir í umræðuþátt þar sem svikulir dómarar eru til umræðu.
„Einn dómari vinnur sem hjúkrunarfræðingur. Hvernig getur hann átt efni á risastóru einbýlishúsi, glæsilegum bíl og átt að auki eignir erlendis,“ segir einn gestanna í þættinum.
Það má sjá þessa fróðlegu en um leið sláandi heimildarmynd hér fyrir neðan.