Handbolti

Handboltaveturinn hefst í kvöld með meistaraleik og Seinni bylgjunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eyjamenn lyftu Íslandsmeistaratitlinum í vor.
Eyjamenn lyftu Íslandsmeistaratitlinum í vor. vísir/andri marinó
Handboltaveturinn fer af stað með pomp og prakt í kvöld þegar að ÍBV tekur á móti Fram í Meistarakeppni HSÍ í Vestmannaeyjum en þar mæta þrefaldir meistarar síðasta árs silfurliði bikarsins.

Leikurinn hefst klukkan 18.30 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en Guðjón Guðmundsson keyrir veturinn í gang klukkan 18.20 þegar að útsending hefst frá Eyjum.

Klukkan 21.00 eða að leik loknum verður svo upphitunarþáttur Seinni bylgjunnar á dagskrá á Stöð 2 Sport HD þar sem að Tómas Þór Þórðarson og sérfræðingar hans spá í spilin fyrir veturinn; fara yfir leikmannahópanna, bestu menn og þá sem geta breytt gangi mála.

Atvinnumenn eru komnir heim til að styrkja liðin en sumir hafa misst meira en önnur. Rýnt verður í sterkustu liðin sem félögin geta stillt upp, breidd og farið yfir þjálfarana, vonir og væntingar.

Nokkrir nýir liðir verða kynntir til leiks eins og Topp 5-listinn þar sem farið verður yfir málefni í deildinni á skemmtilegan hátt í vetur og einnig verður aðeins rifist í Lokaskotinu í lok þáttar.

Logi Geirsson er genginn í raðir Seinni bylgjunnar og verður í þættinum í kvöld ásamt þeim Jóhanni Gunnari Einarssyni og Sebastian Alexanderssyni sem fóru á kostum á síðasta vetri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×