Selfossliðið elskar dramatíkina svo mikið að það bauð meira að segja upp á endurkomu og flautumark í æfingaleik í gær þegar að það vann eins marks sigur, 29-28, á FH á fyrsta leikdegi Hafnafjarðarmótsins á Ásvöllum.
FH-ingar voru betri framan af og breyttu stöðunni úr 10-10 í 16-10 með góðum kafla í fyrri hálfleik og voru yfir í hálfleik, 17-11. En, án Hauks Þrastarsonar minnkuðu Selfyssingar muninn jafnt og þétt í seinni hálfleik.
Staðan var 28-28 þegar að 20 sekúndur voru eftir og þá tók Patrekur Jóhannesson leikhlé. Selfoss fór í sókn og skoraði línumaðurinn Guðni Ingvarsson sigurmarkið um leið og flautan gall eftir fallega sendingu frá Hergeiri Grímssyni.
Guðni fór á kostum í leiknum og skoraði níu mörk auk þess sem að hann tryggði Selfyssingum sigurinn í þessum skemmtilega og spennandi leik.
Tapið var eins vont og það verður fyrir FH í æfingaleik því Selfyssingar mættu til leiks í hvítum búningum en FH átti heimaleikinn og þurftu strákarnir úr Mjólkurbænum því að spila í varabúningum Hauka, erkifjenda FH.
Allan leikinn má sjá hér að neðan en hann var sýndur beint á Haukar TV á Youtube. Með því að spóla á 1:43:09 má sjá lokasókn Selfyssinga.