Erlent

Kína: Regnbogasilungur = Lax

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eftirspurn eftir laxi hefur aukist mikið í Kína á síðustu árum.
Eftirspurn eftir laxi hefur aukist mikið í Kína á síðustu árum. vísir/getty
Kínversk stjórnvöld hafa lýst því yfir að regnbogasilungur og lax séu nægilega skyldar tegundir til að þarlendir fisksalir megi selja þær báðar sem lax.

Ákvörðunin var tekin eftir að fjöldi þarlendra neytendasamtaka kvartaði undan því sem þau kölluðu blekkingar. Lífsýnarannsóknir hafi bent til að mikið af þeim laxi sem seldur var í Kína væri í raun regnbogasilungur. Töluvert hærra verð fæst fyrir fyrrnefndu tegundina á alþjóðamörkuðum.

Í stað þess að banna fisksölum að blekkja viðskiptavini sína ákvað kínverska fisksölusambandið, sem heyrir undir þarlenda landbúnaðarráðuneytið, að greiða götu þeirra. Allur fiskur af laxfiskaætt sé svo skyldur að í raun megi flokka hann allan sem lax.

Úrskurðurinn hefur vakið mikla reiði á kínverskum samfélagsmiðlum þar sem myllumerkið #RegnbogasilungurVerðurLax hefur náð miklu flugi að sögn breska ríkisútvarpsins.

Sala á laxi hefur aukist hratt í Kína á undanförnum árum og hafa kínverskir neytendur kvartað unda því að fá regnbogasilung í auknum mæli þegar þeir fara í fiskbúðina. Þeir hafa ekki síst áhyggjur af því innbyrða sníkjudýr þegar þeir leggja sér regnbogasilunginn sér til munns.

Kínverska fiskeldissambandið gefur lítið fyrir þessar áhyggjur og segir að allur fiskur sem ræktaður er í Kína uppfylli ströngustu skilyrði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×