Innlent

90% Íslendinga á aldrinum 18-29 ára með Netflix

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Vinsældir streymisveitunnar Netflix fara vaxandi á meðal landsmanna en sérstaklega hjá yngri kynslóðinni.
Vinsældir streymisveitunnar Netflix fara vaxandi á meðal landsmanna en sérstaklega hjá yngri kynslóðinni. Vísir/Getty
Tveir af hverjum þremur Íslendingum hafa aðgang að streymisveitunni Netflix eða um 67% landsmanna. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 16.-22. maí.

Þetta er aukning um 8 prósentustig frá því MMR gerði könnun um aðgang að Netflix á sama tíma í fyrra. Sérstaka athygli vakti að heil 90% Íslendinga undir þrítugu hafði aðgang að Netflix á sínu heimili. Yngsti hópur svarenda sem voru á aldrinum 18-29 ára var þannig líklegastur til að hafa aðgang að streymisveitunni.

Aðgengi að Netflix fór síðan minnkandi með aldri en einungis 24% svarenda 68 ára og eldri sögðu einhvern á sínu heimili.

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu voru jafnframt líklegri til að segja einhvern á sínu heimili vera með áskrift að streymisveitunni eða um 70% þeirra heldur en íbúar á landsbyggðinni (62%).

Starfsfólk MMR greindi líka mun á stjórnmálaskoðunum svarenda, þannig voru stuðningsfólk Viðreisnar og Pírata líklegust allra til að segja einhvern á heimili sínu vera með áskrift að Netflix eða um 75%. Kjósendur Framsóknarflokksins voru aftur á móti ólíklegastir til að hafa aðgang að streymisveitunni á sínu heimili.

Einstaklingar 18 ára og eldri voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR og 929 einstaklingar voru spurðir.

Frekari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar er að finna á vef MMR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×