„Ég elska Ísland enn sem komið er. Ég hef heyrt svo mikið um það frá Ólafíu og það er gott að geta komið hingað. Ferðin hefur verið frábær til þessa,“ sagði Woods við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur á Hvaleyrarvelli í gær.
„Völlurinn er mjög fallegur. Alveg við sjóinn og byggður á hrauninu sem er mjög töff. Ég er mjög spennt fyrir því að prófa völlinn og upplifa íslenskt golf,“ sagði Woods. Hún spilaði á Hvaleyrarvelli í gær ásamt Ólafíu Þórunni og þremur öðrum atvinnukylfingum af LPGA og fjölda íslenskra kylfinga. Samtals söfnuðust þrjár milljónir króna til styrktar Umhyggju á mótinu í gær.
Woods spilaði sitt fyrsta ár á LPGA mótaröðinni árið 2015. Hún hefur enn ekki náð að sigra á mótaröðinni en tvisvar verið á meðal 10 efstu. Hún og Ólafía Þórunn hafa náð vel saman og er vel til vina.
„Hún er frábær kylfingur, alveg síðan í háskólagolfinu. Það var mjög fallega gert af henni að bjóða okkur hingað til Íslands og hún er frábær gestgjafi,“ sagði Woods um Ólafíu.
Faðir Cheyenne er hálfbróðir eins þekktasta og sigursælasta kylfings heims, Tiger Woods. Tiger er á meðal keppenda á Opna breska meistaramótinu sem hófst á Carnoustie vellinum í Skotlandi í morgun.
Tiger hefur unnið mótið þrisvar á sínum ferli.. Hann hefur leik á Opna breska klukkan 14:21 að íslenskum tíma.
„Ég held hann eigi góðan möguleika á sigri. Hann er að spila mjög gott golf og mikið af fólki er spennt fyrir honum. Það er alltaf spennandi að fylgjast með Tiger á risamóti svo þetta verður spennandi vika,“ sagði Cheyenne Woods.
Opna breska meistaramótið er í beinni útsendingu á Golfstöðinni alla helgina.