Stéttarfélagið Framsýn fordæmir afskipti forstjóra Hvals hf. af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna og krefst þess að fyrirtækið láti af þeim nú þegar. Jafnframt fagnar félagið því að Verkalýðsfélag Akraness ætli að stefna Hval hf.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Framsýn. Verkalýðsfélag Akraness heldur því fram að Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, hafi meinað starfsmönnum sínum að vera í Verkalýðsfélagi Akraness og að öll iðgjöld á yfirstandandi vertíð verði greidd í Stéttarfélag Vesturlands, þó að starfsmönnum sé frjálst samkvæmt kjarasamningum að velja til hvaða félags iðgjöldum skuli skilað.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélagsins Akraness, hefur sagt að aðgerðir Hvals séu hefndaraðgerð í kjölfar dómsmáls sem verkalýðsfélagið vann gegn Hval hf. vegna vanefnda á kjörum starfsmanns.
Fordæma afskipti Kristjáns Loftssonar

Tengdar fréttir

ASÍ fordæmir „ólöglega hefndarráðstöfun“ Hvals
Forstjóri Hvals hefur krafist þess af starfsmönnum sínum að þeir eigi ekki aðild að Verkalýðsfélagi Akraness.