Innlent

Upp­sagnir ljós­mæðra sem taka gildi á sunnu­dag hafa víð­tæk á­hrif á fæðinga­þjónustu Land­spítalans

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á meðal þess sem nýbakaðar mæður mega búast við er að þær og nýburar þeirra verði útskrifuð beint í heimaþjónustu af fæðingarvakt, sé þess kostur.
Á meðal þess sem nýbakaðar mæður mega búast við er að þær og nýburar þeirra verði útskrifuð beint í heimaþjónustu af fæðingarvakt, sé þess kostur. Vísir/Vilhelm
Landspítalinn hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem útlistuð er aðgerðaáætlun spítalans vegna uppsagna tólf ljósmæðra á spítalanum sem taka gildi þann 1. júlí næstkomandi.

Ljóst er af aðgerðaáætluninni að uppsagnirnar munu hafa víðtæk áhrif á fæðingaþjónustu spítalans.

 

Á meðal þess sem nýbakaðar mæður mega búast við er að þær og nýburar þeirra verði útskrifuð beint í heimaþjónustu af fæðingarvakt, sé þess kostur. Þá getur mögulega orðið röskun á framköllunum fæðinga.

Meðgöngu- og sængurlegudeild mun loka fimm rúmum og hugsanlega verður valkeisaraskurðum beint á Akranes eða Akureyri. Þá verður miðað við að útskrifa konur og nýbura eins fljótt og mögulegt er.

Aðgerðaáætlun spítalans má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:

• Fæðingarvakt Landspítala tekur á móti konum í fæðingu eins og verið hefur, en búast má við að konur og nýburar verði útskrifuð beint í heimaþjónustu af fæðingarvakt, sé þess kostur. Mögulega verður röskun á framköllunum fæðinga.

• Meðgöngu- og sængurlegudeild mun loka fimm rúmum. Þar verður því þrengra um fjölskyldur en undir venjulegum kringumstæðum. Hugsanlega verður valkeisaraskurðum beint á Akranes og Akureyri. Einnig verður miðað við að útskrifa konur og nýbura eins fljótt og mögulegt er.

• Barnshafandi konum er bent á að leita fyrst á sína heilsugæslustöð nema ef um bráð veikindi eða byrjandi fæðingu er að ræða. Læknavaktin mun taka við símtölum og veita ráðgjöf í síma 1770 eftir lokun heilsugæslustöðva.

• Konum sem nýlega hafa fætt barn er sömuleiðis bent á að leita fyrst á sína heilsugæslustöð, til heimaþjónustuljósmóður eða á Læknavakt, nema ef um bráð veikindi er að ræða.

Landspítali hefur undirbúið aukna samvinnu milli deilda spítalans og biðlað til annarra heilbrigðisstofnana um aðstoð. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi, Læknavaktin og Sjúkrahúsið á Akureyri hafa samþykkt að veita aukna þjónustu, í samráði við starfsfólk fæðingarþjónustu Landspítalans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×