Innlent

Eldfim mál í tímaþröng í Víglínunni

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Það er óhætt að segja að þingstörf séu í algeru uppnámi en þar sauð vel upp úr pottunum á fimmtudag þegar stjórnarmeirihlutinn freistaði þess að fá frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar um lækkun veiðigjalda upp á tæpa þrjá milljarða til umræðu með afbrigðum. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra og Hanna Katrín Friðrikasson þingflokksformaður Viðreisnar mæta í Víglínuna til Heimis Más Péturssonar fréttamanns til að ræða þessi mál og ef til vill fleiri.

Stjórnarandstaðan gagnrýnir vinnubrögð í málinu harðlega og kom í veg fyrir að málið yrði tekið á dagskrá. Í frumvarpinu felst að gjaldið verði lækkað á allar útgerðir en aðalástæðan fyrir lækkuninni er sögð vera lakari afkoma lítilla og meðalstórra útgerða.

En það er fleira sem veldur uppnámi í þinginu. Fyrir liggur að afgreiða umdeilda fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. En á síðustu metrunum fyrir þinghlé lagði Sigríður Andersen dómsmálaráðherra fram viðamikið frumvarp um persónuvernd og vörslu persónuupplýsinga sem stjórnarandstaðan segir allt og stórt mál og mikilvægt til að afgreiða með hraði í gegnum þingið.

Smári McCarthy þingmaður Pírata og fleiri hafa kallað eftir þessu frumvarpi mánuðum saman. Hann mætir í Víglínuna til að ræða þessi mál með Sigríði Andersen dómsmálaráðherra.

Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi klukkan 12:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×