Innlent

Gul viðvörun í gildi fram á kvöld

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hvassviðrinu fylgir talsverð úrkoma sunnan-og vestanlands.
Hvassviðrinu fylgir talsverð úrkoma sunnan-og vestanlands. vísir/vilhelm
Gul viðvörun verður í gildi á Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði frá hádegi í dag og fram á kvöld vegna hvassviðris eða storms.

Varasamt verður að vera á ferðinni á farartækjum sem taka á sig mikinn vind þar sem akstursskilyrði geta orðið erfið.

Suðaustanáttin verður vaxandi í dag að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Verður allhvasst eða hvasst og talsverð rigning sunnan-og vestanlands síðdegis. Úrkomulítið verður norðaustan til á landinu og hægari vindur fram á kvöld.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:

Vaxandi suðaustanátt með rigningu S- og V-til á landinu í dag, allhvasst eða hvasst og talsverð úrkoma síðdegis en hægari fyrir norðan og austan fram á kvöld. Hiti 5 til 13 stig, hlýjast NA-lands. Suðvestan 8-15 og skúrir á morgun, en léttskýjað á NA-verðu landinu. Hægari og úrkomulítið síðdegis.

Á miðvikudag:

Suðvestan 8-13 og skúrir, en léttskýjað á norðaustanverðu landinu. Hægari og úrkomulítið síðdegis. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast NA-lands.

Á fimmtudag:

Suðaustan 5-13 og rigning, einkum S- og V-lands. Vestan og suðvestan 8-18 síðdegis, hvassast SA-til. Hiti 4 til 13 stig, mildast á NA-landi.

Á föstudag:

Suðvestan 5-13 og smáskúrir eða slydduél, en þurrt og bjart veður NA- og A-lands. Fer að rigna á S- og V-landi um kvöldið. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×