Innlent

Laun stjórnar Hörpu voru hækkuð

Kjartan Kjartansson skrifar
Mánaðarleg þóknun fyrir setu í stjórn Hörpu verður nú 100.000 krónur. Þóknun formanns er tvöfalt hærri.
Mánaðarleg þóknun fyrir setu í stjórn Hörpu verður nú 100.000 krónur. Þóknun formanns er tvöfalt hærri. Vísir/Egill
Tillaga stjórnar tónlistarhússins Hörpu um að hækka laun fyrir stjórnarsetu um rúm 8% var samþykkt af fulltrúum ríkis og borgar á aðalfundi þess fyrir tveimur vikum. Stjórnarmaður Hörpu segist telja að laun stjórnarmanna hafi lækkað minnst af þeim sem starfa þar. Mikil umræða hefur geisað um launahækkun forstjóra Hörpu á sama tíma og þjónustufulltrúar voru lækkaðir í launum.

Stjórn Hörpu bar upp tillögu um að hækka laun almennra stjórnarmanna um 7.500 krónur eða rúm 8% á aðalfundinum sem fór fram 26. apríl. Þóknun fyrir stjórnarsetu á þessu starfsári verður því 100.000 krónur á mánuði. Formaður stjórnar fær tvölfalda þá þóknun.

Tillagan var samþykkt að því er kemur fram í fundargerð aðalfundarins. Fjórir úr fyrri stjórn Hörpu voru kjörnir til að sitja áfram í stjórn á fundinum. Aðeins fulltrúar eigenda hússins, ríkisins og Reykjavíkurborgar, hafa atkvæðisrétt á aðalfundinum. 

Vilhjálmur Egilsson, stjórnarmaður í Hörpu, segir við Vísi að laun fyrir setu í stjórn Hörpu hafi síðast hækkað árið 2013. Hann telji launahækkun stjórnarmanna nú langt innan ramma Salek-samkomulagsins svonefnda. Þóknunin fyrir stjórnarsetu í Hörpu sé lægri en það sem gerist hjá fyrirtækjum á markaði.

„Ég myndi nú halda að stjórnarlaunin hafi hækkað hvað minnst af þeim sem eru starfandi þarna í Hörpu, tala ekki um vinnumarkaðinn í heild,“ segir hann.

 

Vilhjálmur Egilsson hefur setið í stjórn Hörpu undanfarin ár.Vísir/Anton Brink

Forstjórinn hækkaði, þjónustufulltrúar lækkuðu

Fjarðrafok hefur verið í kringum launamál forstjóra og starfsmanna Hörpu að undanförnu eftir að í ljós kom að laun Svanhildar Konráðsdóttur, forstjóra, hækkuðu í rúma eina og hálfa milljón króna á mánuði eftir að ákvarðanir um laun forstjórans voru færð frá kjararáði um áramótin. Á sama tíma var þjónustufulltrúum Hörpu gert að taka á sig launalækkun.

Nánast allir þjónustufulltrúarnir sögðu upp störfum vegna málsins í vikunni. Þá hætti verkalýðsfélagið VR öllum viðskiptum við HörpuTónlistarkonan Ellen Kristjánsdóttir og menningarrýnirinn Illugi Jökulsson ákváðu einnig að sniðganga tónlistarhúsið vegna málsins.

Svanhildur fór í kjölfarið fram á við stjórnina að laun hennar yrðu lækkuð. Vísaði hún til mikilvægis þess að friður væri um starfsemi Hörpu. Formaður VR sagði þá beiðni engin áhrif hafa á ákvörðun sína um að hætta viðskiptum við Hörpu.


Tengdar fréttir

VR hættir viðskiptum við Hörpu

Stéttarfélagið VR hefur ákveðið að hætta að nota Hörpu tónlistarhús undir viðburði félagsins. Ákvörðunin er tekin í ljósi yfirýsingar forstjóra Hörpu sem send var út í dag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá VR.

Starfsmönnum Hörpu var gert að samþykkja launalækkun

Reiði er meðal starfsmanna Hörpu vegna launahækkunar forstjóra í fyrra. Þjónustufulltrúar þurftu að taka á sig verulega launalækkun í lok síðasta árs vegna slæmrar stöðu félagsins. Leituðu til lögfræðinga VR vegna þessa. Þjónustufulltrúinn Örvar Blær Guðmundsson sagði upp í gær eftir að hafa lesið frétt Fréttablaðsins.

Segja of seint í rassinn gripið

Ósk Svanhildar Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, um launalækkun til fyrra horfs hefur engin áhrif á ákvörðun VR um að hætta viðskiptum við Hörpu.

Stjórn Hörpu svarar fyrir sig

Segja laun forstjóra Hörpu ekki hafa hækkað um tuttugu prósent á tveimur mánuðum heldur 16,8 prósent á fjórum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×