Innlent

Útlánavöxtur til ferðaþjónstunnar dróst mikið saman frá miðju ári 2017

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Jafnframt hefur hægt á fjölgun ferðamanna.
Jafnframt hefur hægt á fjölgun ferðamanna. Vísir/stefán
Útlán viðskiptabankanna þriggja til fyrirtækja í ferðaþjónustu jukust um 20 prósent á milli ára. Lánin námu 212 milljörðum króna við árslok 2017. Útlánavöxturinn hefur dregist mikið saman frá miðju ári 2017 samhliða minnkandi vexti atvinnugreinarinnar. Þetta kemur fram í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins.

Útlán viðskiptabankanna til fyrirtækja í ferðaþjónustu námu um 15,2 prósentum af útlánum þeirra til fyrirtækja. Útlán með veði í hótelbyggingum jukust um 46 prósent frá árinu 2015 til 2017. Útlánin námu 144 milljörðum króna við lok síðasta árs, að því er fram kemur í skýrslunni.

Útlán bankanna til bílaleiga námu 42,1 milljarði króna á miðju ári 2017 en drógust saman á síðustu sex mánuðum ársins 2017 og voru 34,5 milljarðar í lok árs 2017. Það er 18 prósenta samdráttur.

Helsti áhættuþátturinn í útlánasafni viðskiptabankanna að mati FME eru lán með veði í atvinnuhúsnæði. Slík lán námu um 574 milljörðum króna við lok síðasta árs. Í ársskýrslunni segir að raunverð verslunar- og skrifstofuhúsnæðis sé nú orðið hærra en það var við topp hagsveiflunnar árið 2007.

Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir í ársskýrslunni, að heildarendurskoðun á evrópska regluverkinu í kjölfar fjármálakreppunnar sé að mestu leyti lokið. Verulegur uppsafnaður upptökuhalli sé hérlendis á evrópska regluverkinu varðandi fjármálamarkaði. Það muni gera það að verkum að á næstu misserum og árum verði áframhald á örri þróun laga og reglna á fjármálamarkaði. Hallinn stafi af því að hérlend stjórnvöld hafi ekki gert nægar ráðstafnir til að mæta fjölda og umfangi Evróputilskipana og -reglugerða.




Tengdar fréttir

„Komst þú inn í Ísland? Ekki ég, það var fullt“

Doug Lansky, alþjóðlegur fyrirlesari og ráðgjafi í ferðamálum, segir að íslensk yfirvöld og ferðaþjónustufyrirtæki ættu að setja upp bókunarkerfi fyrir ferðamenn á helstu ferðamannastaði landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×