Laun og launatengd gjöld bæjarfulltrúa í bænum námu 45,1 milljón króna árið 2016 en 67,6 milljónum 2017. Þetta er hækkun um 50 prósent.
Ákveðið var í júlí 2016 að laun bæjarfulltrúanna yrðu tiltekið hlutfall af þingfararkaupi. Í Fréttablaðinu í janúar 2017 kom fram að það væri gert til að færa launaákvarðanir úr höndum bæjarfulltrúa. Ákvörðun kjararáðs 1. nóvember 2016 um mikla launahækkun þjóðkjörinna fulltrúa þýddi síðan að óbreyttu að laun sveitarstjórnarfulltrúa myndu líka hækka.
Hafnarfjarðarbær frestaði þó gildistöku þeirrar hækkunar til að sjá hvort og hvernig Alþingi myndi bregðast við gríðarmikilli gagnrýni á ákvörðunina. Er ljóst varð að þingmenn myndu ekki lækka laun sín ákváðu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði að láta breytinguna gilda hjá sér líka.
Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu standa laun Haraldar L. Haraldssonar bæjarstjóra nánast í stað milli ára. Laun og launatengd gjöld hans nema rúmum 24,7 milljónum á ári, eða um tveimur milljónum á mánuði.
