Innlent

Tveggja stafa hitatölur í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hitaspákort Veðurstofunnar fyrir hádegið á morgun. Eins og sést glittir í tveggja stafa tölur sums staðar á landinu.
Hitaspákort Veðurstofunnar fyrir hádegið á morgun. Eins og sést glittir í tveggja stafa tölur sums staðar á landinu. veðurstofa íslands
Suðaustlægar og svo austlægar áttir verða ríkjandi í veðrinu fram yfir helgi og megnið af næstu viku samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Þessum áttum fylgja hlýindi og væta þótt lengst af verði reyndar þurrt fyrir norðan og það sjáist jafnvel til sólar. Þá sjást tveggja stafa hitatölur alloft að deginum þó að búast megi við næturfrosti í innsveitum norðanlands.

Á morgun getur vindur síðan orðið allhvass eða hvass við fjöll sunnanlands á morgun og eru vegfarendur á þeim slóðum því beðnir um að fara varlega.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:

Suðlæg átt, víða 8-13 m/s og rigning með köflum S- og V-lands, annars yfirleitt bjartviðri. Lægir heldur með morgninum og 5-10 m/s víða um land í dag, áfram lítilsháttar væta V-til fram á kvöld, en annars úrkomulítið.

Hvessir í nótt og suðaustan 10-18 á morgun, hvassast syðst. Rigning með köflum á S-verðu landinu, en víða léttskýjða nyrðra.

Hiti 5 til 13 stig að deginum, svalast á annesjumn, en vægt næturfrost í innsveitum NA-til.

Á laugardag:

Austlæg átt, yfirleitt á bilinu 5-13 m/s. Talsverð rigning suðaustanlands, skýjað með köflum og úrkomulítið norðanlands, en rigning á köflum í öðrum landshlutum. Hiti 4 til 12 stig, hlýjast norðvestanlands.

Á sunnudag:

Fremur hæg austanátt og bjartviðri á N-landi, annars rigning á köflum og milt veður. Bætir í vind sunnanlands síðdegis.

Á mánudag:

Stíf austanátt með rigningu á S-verðu landinu, en þurru veðri nyrðra. Hlýnar heldur í bili.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir hvassa og hlýja austanátt. Þurrt að mestu á Norðurlandi. Rigning í öðrum landshlutum og úrhellisrigning fyrri part dags suðaustan til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×