Handbolti

Landsliðskonur halda tryggð við Selfoss

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Perla Ruth Albertsdóttir.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Perla Ruth Albertsdóttir. Mynd/Selfoss
Kvennalið Selfoss í Olís-deildinni í handbolta er byrjað að undirbúa næsta tímabil en í gær samdi það við tvo bestu leikmenn liðsins til næstu tveggja ára.

Landsliðskonurnar Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Perla Ruth Albertsdóttir halda tryggð við Selfyssinga þrátt fyrir erfitt gengi í vetur en liðið endaði í sjötta sæti og hélt sér í deildinni.

Hrafnhildur Hanna hefur verið einn albesti leikmaður deildarinnar undanfarin ár en hún var markahæst bæði á síðustu leiktíð og tímabilið á undan því. Hún skoraði 9,5 mörk að meðaltali í leik áður en hún sleit krossband.

Perla Ruth Albertsdóttir var útnefnd besti línumaður deildarinnar í vetur en hún skoraði 100 mörk í 21 leik og er orðinn fastamaður í íslenska landsliðinu eins og Hrafnhildur Hanna.

Stórskyttan Hrafnhildur Hanna kom til baka þegar að tólf leikir voru eftir af tímabilinu og skoraði 34 en það má búast við henni mun sterkari næsta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×