Handbolti

Berta komin í gifs eftir atvikið skelfilega | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gærkvöldið byrjaði vel hjá Bertu Rut Harðardóttur, hægri skyttu Hauka í Olís-deild kvenna, en það endaði vægast sagt hryllilega.

Þessi stórefnilega skytta fékk afhent verðlaun fyrir að vera besti ungi leikmaður deildarinnar í vetur en tilkynnt var um kjörið í Seinni bylgjunni á mánudagskvöldið.

Sjá einnig:Þjálfari Hauka vill fá þriggja leikja bann fyrir brotið

Hún var svo búin að skora þrjú mörk í fyrsta leik Hauka gegn Val í undanúrslitum Olís-deildarinnar í gær þegar að hún meiddist illa og var borin af velli í byrjun seinni hálfleiks.

Gerður Arinbjarnar, leikmaður Vals, braut á Bertu með þeim afleiðingum að hún gat ekki tekið frekari þátt í leiknum og var farið rakleiðis með Haukastúlkuna upp á sjúkrahús. Gerður fékk rautt spjald fyrir brotið.

Berta Rut er komin í gifs en óvíst er enn þá hversu alvarleg meiðslin eru. Elísabet Kristjánsdóttir, móðir Bertu, sagði við Vísi í morgun að þær væru að bíða eftir áliti bæklunarsérfræðings sem skoðar myndirnar sem teknar voru af henni í gærkvöldi. Vonast er til að meiðslin séu ekki eins alvarleg og fyrst var haldið.

Ef illa fer gæti Berta ekki bara misst af restinni af úrslitakeppninni heldur einnig HM með U20 ára landsliðinu í sumar en þar er Berta lykilmaður,

Atvikið sem um ræðir má sjá í spilaranum hér efst í fréttinni.


Tengdar fréttir

Elías Már: Hún stökk með báðar fætur á undan sér og klippti Bertu niður

Elías Már Halldórsson var ekki sáttur við Gerði Arinbjarnar, leikmann Vals, í leik liðanna í undanúrslitum Olís deildar kvenna í handbolta í kvöld. Gerður braut á Bertu Rut Harðardóttur í leiknum og hlaut beint rautt spjald fyrir brot sitt. Bera þurfti Bertu af velli á sjúkrabörum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×