Sótmengun í og við stofnbrautir í Reykjavík mælist jafn mikil og í borgum á við Rotterdam og Helsinki. Sót er einn eitraðasti hluti svifryksins í borginni og því mikilvægt að stemma stigu við svifrykinu. Einstaklingar í bílum sínum eru berskjaldaðri fyrir sótmengun en gangandi vegfarendur.
Þetta sýna fyrstu vísbendingar rannsóknar Bergljótar Hjartardóttur en hún vinnur að meistararitgerð í umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands. Bergljót, ásamt fjölda annarra, heldur fyrilestur um rannsókn sína á Hilton Nordica í dag í tilefni dags verkfræðinga. „Fyrstu vísbendingar eru þær að mælingar mínar á sótmengun við þessa stofnbraut hér á landi jafnist á við þær mælingar sem gerðar hafa verið á stofnbrautum í Rotterdam og Helsinki,“ segir hún.
Mælingar Bergljótar gefa tilefni til að ætla að vegfarendur í morgun- og síðdegisumferð fái alveg jafn mikið, ef ekki meira, af sótmengun en þeir sem gangandi eru. „Ég virðist vera að fá hærri gildi þegar ég ek í morgunog síðdegisumferð en þegar ég geng. En rannsóknin er auðvitað háð takmörkunum og það þarf að gaumgæfa þessar vísbendingar betur.“
Íbúar Rotterdam voru um 650 þúsund um síðustu áramót. Í Helsinki bjuggu um 1,4 milljónir manna en inni í þeim tölum eru einnig úthverfi Helsinki og nærliggjandi bæir. Sótmengunargildi Reykjavíkursvæðisins, með sína 200 þúsund íbúa, er því nokkuð hátt.
Sót verður til við bruna eldsneytis og meira sót kemur af bruna dísilolíu en bensíns. Sót er einn eitraðasti og fíngerðasti hluti svifryksins í borginni, það getur sest djúpt í lungnavefinn og er afar hættulegt heilsu manna, sér í lagi þeirra sem hafa undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma. Bergljót mælir sót í svifryki með tvennum hætti. Hún bæði gengur og ekur Miklubraut frá Lönguhlíð og upp í Skeifu og mælir magn sóts í andrúmsloftinu.
