Sunna Elvíra Þorkelsdóttir er komin til Íslands. Hún var flutt með sjúkraflugi frá Sevilla á Spáni í dag og lenti vélin á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir klukkan 17.
Sunna hefur dvalið á sjúkrahúsi á Spáni síðan um miðjan janúar, samtals í tæpa þrjá mánuði, en hún slasaðist alvarlega eftir fall á heimili hennar og eiginmanns hennar, Sigurðar Kristinssonar. Hann var handtekinn hér á landi í janúar í tengslum við fíkniefnainnflutning og var Sunna í kjölfarið sett í farbann, sem var aflétt í síðustu viku. Í dag bárust svo fréttir af því að Sigurður og móðir Sunnu hefðu verið ákærð fyrir skattalagabrot.
Samkvæmt frétt Mbl biðu sjúkrabíll og lögreglubíll á flugvellinum í Keflavík þar sem Sunna lenti um klukkan 17 í dag. Páll Kristjánsson, lögmaður Sunnu, sagði í samtali við fréttastofu í gær að hún færi í endurhæfingu á Grensás við komuna hingað til lands.

