Séra Ólafur Jóhannsson, sóknarprestur í Grensáskirkju, hefur áfrýjað málunum tveimur þar sem hann var fundinn sekur um að hafa framið siðferðisbrot í skilningi þjóðkirkjulaga til áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar. Að mati lögmanns Ólafs vaknar sú spurning hvort ein kæran sé runnin undan rifjum biskups, prófasts eða öðrum vinkonum í kirkjunni sem vilji fella séra Ólaf.
Fimm konur kærðu Ólaf á haustmánuðum fyrir kynferðislega áreitni á kirkjulegum vettvangi. Biskup tók hart á málinu og sendi Ólaf í launað leyfi sem enn er í gildi og var framlengt í síðustu viku. Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður Ólafs, er afar vonsvikinn yfir vinnubrögðum biskups. „Biskup sendir séra Ólaf í leyfi vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi. Úrskurðarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið um kynferðislegt ofbeldi að ræða. Því eru ekki rök fyrir því að framlengja það leyfi á þeim forsendum,“ segir Einar Gautur.
Í bréfi Einars Gauts til áfrýjunarnefndarinnar í einu málinu vitnar hann til samskipta konunnar við Ólaf. Meðal gagna eru þrjú jólakort, árin 2012, 2015 og 2016, þar sem konan talar vel til Ólafs og sendir honum „þúsund kossa“ eins og stendur í jólakortunum. Á það að vera til vitnis um góðan anda milli þeirra og geta bent til þess að ákæran sé ekki af heilum hug komin.
Sjá einnig: Brotaþolar segja líkar sögur af sóknarpresti
„Að mati áfrýjanda eru allar þessar kveðjur í stíl við áralöng samskipti gagnaðila við hann en kæra gagnaðila er algjörlega á skjön við þau samskipti sem hafa aldrei falið í sér einhliða markaleysi, valdbeitingu eða ógnun,“ skrifar Einar Gautur.
Einnig telur Einar Gautur að konurnar hafi samhæft atvikalýsingu að einhverju leyti. Ásakanir kvennanna eru allar keimlíkar, um að sóknarpresturinn hafi sleikt og nartað í eyrnasnepla þeirra. Séra Ólafur þvertekur fyrir að hafa viðhaft það hátterni.
„Áfrýjandi kannast ekki við þær sjálfur og hefur hann engar aðrar skýringar en að þær hafi smitast úr öðrum málum á hendur sér. Fyrir liggur og er óumdeilt að konurnar í þeim málum stóðu saman sem ein heild,“ segir í áfrýjun séra Ólafs.
Ólíklegt þykir að Ólafur komi til starfa á þessu ári á meðan málið er til meðferðar áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar.
