Innlent

Segir umræðu um endurgreiðslur til þingmanna að mörgu leyti á villigötum

Höskuldur Kári Schram og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Þingmenn og ráðherrar fá tæplega hundrað milljónir á ári í fastar kostnaðargreiðslur samkvæmt upplýsingum sem birtar voru á nýjum vef Alþingis í dag. Forseti þingsins segir að umræðan um endurgreiðslur til þingmanna hafi að mörgu leyti verið á villigötum og ekkert bendi til þess að lög hafi verið brotin.

Alþingi opnaði í dag upplýsingavef um laun og kostnaðargreiðslur þingmanna.  Til stendur að þróa vefinn áfram á næstu vikum og mánuðum og birta einnig upplýsingar um greiðslur sem eru breytilegar þar með talið endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar. Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis segir þetta vera skref í þá átt að auka gagnsæi.

„Ég vil segja það að ég tel að Alþingi hefði fyrr mátt taka skref í þessa átt. Við höfum ekki staðið okkur sem skyldi til að mæta kröfum tímans um gagnsæi að þessu leyti.“

Níu landsbyggðarþingmenn þiggja hámarksgreiðslur vegna búsetu-, dvalar- og ferðakostnaðar- rúmar 257 þúsund krónur á mánuði. Andrés Ingi Jóns­son þingmaður Vinstri grænna er með lægstu greiðsluna, þrjátíu þúsund krónur á mánuði. Í heild greiðir Alþingi rúmar átta milljónir króna á mánuði til þingmanna og ráðherra vegna þessa eða um níutíu og níu milljónir króna á ári. Steingrímur segir um eðlilegar greiðslur að ræða sem eru til þess fallnar til að jafna aðstöðumun milli þingmanna landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins.

„Það gætir ákveðins misskilnings í því að hér sé bara um að ræða greiðslur til að mæta einföldu eða tvöföldu heimilishaldi. Þetta er einfaldlega til þess að reyna að mæta þeim aðstæðum sem þingmenn víðlendu landsbyggðarkjördæmanna búa við. Lögheimilisskráningin sem slík skiptir engu máli og hefur ekki gert í yfir tuttugu ár.“

Þá gagnrýnir hann þá umræður sem hefur verið í gangi um einstaka þingmenn og ásakanir um meint lögbrot.

„Það hefur ekkert komið upp í mínar hendur sem gefur mér tilefni til ætla að hér hafi átt sér stað einhver saknæm eða refsiverð brot og það er miður að umræðan sé farin að hverfast um slíkt á meðan að menn hafa mér vitanlega engin gögn í höndum um slíkt“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×