Innlent

Hvassviðri, snjókoma og „almenn leiðindi“ í kortunum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Vetrarveðrið ætlar að staldra við á suðvesturhorninu.
Vetrarveðrið ætlar að staldra við á suðvesturhorninu. Vísir/Hanna
Búast má við áframhaldandi éljagangi sunnan- og vestantil á landinu næstu daga. Áfram verður bjart norðaustantil.

„Það er svona ósköp svipað veður í kortunum. Heldur hægari vindur á morgun en það er sama bara. Él sunnan og vestanlands og suðvestanátt. Nokkuð bjart norðaustantil. Það er í rauninni voða litlar breytingar,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi.

„Á föstudaginn þá er vaxandi austanátt og á föstudagskvöldið má búast við hvassviðri og jafnvel stormi allra syðst á landinu og snjókomu með því.“

Birta Líf segir að létti til á vestanverðu landinu um tíma á föstudagskvöld.

„Svo er helgin bara frekar leiðinleg. Það er bara hvass vindur víða og snjókoma. Það er lægð ða koma sem skiptir svo miklu máli hvar hún dettur inn en almennt séð er útlit fyrir hvassviðri all víða. Hvassan vind, og snjókomu og almenn leiðindi.“

Veðurhorfur á landinu

Suðvestan 10-18 með éljum, en léttskýjað á NA- og A-landi. Heldur hægari á morgun, en hvessir svo aftur vestast á landinu annað kvöld. Frost 0 til 8 stig, kaldast í innsveitum NA-lands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:

Suðvestan 8-15 m/s, en norðaustanátt á Vestfjörðum í fyrstu. Snjókoma eða él S- og V-lands, en annars þurrt. Frost 0 til 8 stig. Vaxandi austanátt syðst um kvöldið með ofankomu og hlýnandi veðri.

Á laugardag:

Gengur í norðaustan hvassviðri eða storm fyrir norðan, en hvassa vestanátt S-til. Víða snjókoma, en jafnvel slydda A-ast. Dregur úr frosti.

Á sunnudag:

Stíf norðlæg átt með snjókomu V-til, en hægari suðlæg átt og úrkomulítið A-lands. Fer aftur kólnandi.

Á mánudag:

Suðvestlæg átt með éljum, en bjart NA-til. Kalt í veðri.

Á þriðjudag:

Breytilegar áttir og snjókoma með köflum S- og A-lands, en bjart annars staðar. Frost um allt land.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir stífa austlæga átt og rigningu eða slyddu um landið A-vert með hlýnandi veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×