Konan fór í svokallaða magaermaraðgerð í lok febrúar í fyrra. Auðun Sigurðsson, læknir og eigandi fyrirtækisins Gravitas, segir konuna hafa fengið þekkta hliðarverkun vegna aðgerðarinnar sem hafi síðan gengið til baka eftir meðferð. Hann svaraði því ekki hvers eðlis hliðarverkunin væri eða hversu algeng.

Einstaklingar sem ákveða að undirgangast aðgerðir af þessu tagi greiða fyrirtækinu beint. Magabandsaðgerð, sem Gravitas býður líka upp á, kostar rétt liðlega eina milljón króna. Magaermaraðgerð, eins og sú sem konan fór í, kostar hálfa aðra milljón króna.
Magaermaraðgerð minnkar magann um 75 til 80 prósent. Maginn verður eins og ermi eða banani í laginu. Fyrirtækið Gravitas framkvæmir aðgerðirnar. Gerðar voru um 330 magabands- og magaermaraðgerðir árið 2016 og svipaður fjöldi í fyrra.
Forsvarsmenn Landspítalans gátu ekki tjáð sig um einstök mál þegar eftir því var leitað. Hins vegar væri það verkefni spítalans að sinna öllu því veika fólki sem inn til hans kæmi, hvaðan sem orsök meina þeirra væri komin.
Óvænt atvik í heilbrigðisþjónustu skal tafarlaust tilkynnt til landlæknisembættisins sem hefur eftirlit með heilbrigðisþjónustu í landinu. Enn fremur segir í lögum að landlæknir skuli rannsaka slík mál til að finna á þeim skýringar og tryggja að slíkt eigi sér ekki aftur stað. Veita skal landlækni þær upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg við rannsókn málsins.
Þær upplýsingar fengust frá Embætti landlæknis að Landspítalinn hefði tilkynnt andlát konunnar til embættisins og er það nú í rannsókn. Að öðru leyti getur embættið ekki veitt upplýsingar um einstök mál.