Fimm eru í framboði, fjórir karlar og ein kona. Það eru þau Áslaug Friðriksdóttir, Eyþór Arnalds, Kjartan Magnússon, Viðar Guðjohnsen og Vilhjálmur Bjarnason.
Gísli Kr. Björnsson, formaður Varðar, segir að á þriðja hundrað manns hafi verið búnir að kjósa kl. 11. Þá höfðu á sjötta hundrað manns greitt atkvæði utan kjörfundar.
Hann segir mikinn hug í sjálfstæðismönnum fyrir borgarstjórnarkosningarnar og segir gaman að sjá hversu margir hafi áhuga á leiðtogasætinu.
„Sjálfstæðisflokkurinn á mörg góð efni í borgarstjórastólinn, það er ekki spurning,“ segir Gísli.
Kjörstaðir loka kl. 18 en Gísli gerir ráð fyrir að fyrstu tölur liggi fyrir í kringum kvöldmatarleytið.